Hótel Klettur er glæsilegt fyrsta flokks hótel, steinsnar frá miðbæ Reykjavíkur. Á hótelinu eru 166 herbergi, þar af 145 Standard herbergi, 18 Superior herbergi og 3 fjölskylduherbergi. Superior herbergin eru 18 talsins en 10 þeirra hafa einkasvalir og fimm hafa útsýni yfir sundið og nærliggjandi fjöll. Á fyrstu hæð hótelsins er falleg setustofa auk morgunverðarsalar þar sem boðið er upp á veglegan morgunverð sem er innifalinn. Einnig má þar finna glæsilega setustofu og leikherbergi. Þar er hægt að spila pool, fótboltaspil og einnig geta börnin setið í setukrók og horft á skemmtilegt íslenskt barnaefni.

Nafn hótelsins er dregið af kletti sem hefur fengið að njóta sín á fyrstu hæð hótelsins og springur þar út í gegnum vegginn. Allt útlit og innviðir hótelsins fá innblástur frá íslenskri náttúru og þá sérstaklega íslenskum bergtegundum.

Margar álfasögur má finna í þjóðsögum Íslendinga. Dæmi eru um að vegaframkvæmdum og húsbyggingum hafi þurft að breyta vegna þess að ómögulegt hefur reynst að færa stóra steina þar sem talið er að álfar búi. Þessi ummerki má sjá á ýmsum vegaframkvæmdum og húsbyggingum í dag.

Sögur af álfum eiga uppruna sinn í goðfræðisögnum þar sem sagt er frá álfum og dvergum. Þeir eru taldir vera smáguðir sem eru samofnir hugmyndum manna um náttúruna og frjósemi. Álfar eru oftast ósýnilegir, en geta gert sig sýnilega þegar þá langar. Þeir geta verið hjálpsamir og góðir við þá sem vilja þeim ekki mein, geta gert greiða fyrir greiða. Aftur á móti geta þeir verið ósvífnir og hefnt sín grimmilega ef brotið er á þeirra hlut.

Þó svo að það sé ekki vitað með vissu er auðvelt að ímynda sér að kletturinn hafi fengið að halda sér á fyrstu hæðinni til þess að raska ekki ró álfanna.